Velkomin –
Höfuðstöðvar Hagtaks eru í Hafnarfirði en unnið er vítt og breitt um landið, ásamt verkefnum í Færeyjum og Setlandseyjum. Hagtak hefur tekið að sér alls kyns verkefni en hefur aðallega einbeitt sér að dýpkunar- og bryggjuframkvæmdum, einkum þar sem sprengja þarf neðansjávar. Einnig annast fyrirtækið flókin stjórnunarverkefni, þar sem reynsla starfsmanna nýtist vel, svo sem við virkjanaframkvæmdir. Þá henta tæki fyrirtækisins vel til ýmis konar rannsóknarvinnu í höfnum.
Umhverfisstefna –
Stefna Hagtaks er að vera til fyrirmyndar í umhverfismálum. Fyrirtækið leitast við að hafa jákvæð áhrif á umhverfi og samfélagið með ákvörðunartöku sinni og þjónustu. Hagtak mun tryggja að stöðugum umbótum á umhverfisstarfi fyrirtæisins sé haldið til stefnu og að starfsmenn séu meðvitaðir um stefnum fyrirtækins.
Saga Hagtaks –
Að stofnun félagsins stóðu eigendur Hagvirkis hf annars vegar og sænska verktakafyrirtækið NCC-international Ab. Upphaflegt markmið félagsins var að vera sameiginlegur aðili fyrir báða vegna tilboða í stærri verkefni á Íslandi. Frá þeim tíma og þar til í júlí 2005 var Aðalsteinn Hallgrímsson forstjóri fyrirtækisins. Fyrstu árin var einkum um vélaleigu að ræða auk þess sem Hagtak tók að sér innréttingar í Þjóðarbókhlöðunni árin 1992 – 1994, en verkkaupinn var Ríkiskaup. Árið 1993 keyptu aðrir eigendur NCC út og færðu svo hlutaféð niður sem því nam. Félagið var frá því í eigu sömu félaganna, en þeir voru Aðalsteinn Hallgrímsson, Gísli Friðjónsson, Jóhann G. Bergþórsson og Svavar Skúlason.
Frá því að verktakafyrirtækið Hagvirki var stofnað 1981, og að nokkru leyti fyrir það, höfðu þeir félagar starfað saman í gegnum súrt og sætt. Þegar aldurinn hefur færst yfir hefur þátttaka í rekstrinum verið mismunandi en ávallt verið fylgst vel með gangi mála og sameiginleg ákvarðanataka hefur verið í stefnumótun. Eftir að NCC fór út úr fyrirtækinu var starfsviðið útvíkkað og tækjakosti breytt. Svavar Skúlason lagði fyrirtækinu til ýmsan tækjakost til hafnarframkvæmdanna sem síðan var aukinn í samræmi við verkefnin.
Starfsmenn allir höfðu mikla reynslu af fjölbreytilegum verkum frá starfsemi Hagvirkis og Hagvirkis-Kletts allt frá árinu 1979. Við gjaldþrot Hagvirkis-Kletts í árslok 1994 tók Hagtak að sér frágang í safnaðarheimili og tónlistarskóla fyrir Hafnarfjarðarbæ og einnig undirgöng við Krókháls og Rauðavatn fyrir Vegagerð Ríkisins. Jafnframt var byrjað á fyrsta hafnargerðarverkefninu, en fyrirtækið tók að sér sprengingar fyrir stálþili í Helguvíkurhöfn og dýpkun með sprengingum ásamt rannsóknarborunum fyrir Hafnarfjarðarhöfn. Því næst kom 1995 dýpkun með sprengingum við Miðbakka í Þorlákshöfn, rannsóknarboranir í Grindavíkurhöfn og dýpkanir á Siglufirði og í Hafnarfirði. Næstu ár var unnið að hafnargerð, einkum sprengingum neðansjávar fyrir stálþilum og vegna dýpkunar. Slík verkefni voru unnin í Grindavík í samstarfi við færeyskt fyrirtæki J.&K.Petersen. Þá var unnið í Straumsvíkurhöfn, Höfn í Hornafirði, á Arnarstapa, Vestmannaeyjum, Ólafsfjarðarhöfn, Húsavík, Blönduósi, Keflavíkurhöfn, Raufarhöfn, Bolungarvík, Sandgerði, Ísafirði, Súðavík, Krossanesi, Ólafsvík, Akranesi, Vopnafirði, Grundarfirði, Grindavík, Þórshöfn, o.fl.
Jafnframt dýpkunarverkefnum var eftir sprengingar á þilskurðum unnið að gerð stálþila af ýmsum gerðum og stærðum. Einnig voru leigð tæki og mannafli til ýmis konar rannsókna vegna hafnargerða, tilraunaborana og mælinga, m.a. í Straumsvíkurhöfn, í Hafnarfirði og við Sundabraut í Reykjavík.
Árið 1998 voru starfsmenn fyrst sendir til hafnarverkefnis í Fuglafirði í Færeyjum til aðstoðar samstarfsaðilanum J.&K. Petersen. Árið 1995 kom svo fyrst hliðarfyrirtækið Bensi hf, en auk fjórmenninganna átti Benedikt Benediktsson verkstjóri jafnan hlut í því. Það fyrirtæki stofnaði síðan í ársbyrjun 2001 fyrirtæki í Færeyjum, Articon p/f með færeyskum aðilum sem eiga meirihluta í því og stjórna því í Færeyjum. Frá 2001 hefur Hagtak lagt til ýmsa starfsmenn til verkefna í Færeyjum á vegum Articon, einkum í smíðum, hafnarverkefnum og stærri vegagerðar- og jarðvinnuverkefnum þar sem stjórnunar- og almenn reynsla starfsmanna hefur nýst vel.Fyrsta stóra verkefnið var við byggingu nýrrar ferjuhafnar á Drelnesi við Trongisvog í Suðurey frá september 2003 til október 2004.
Á meðan mestur mannafli og tæki voru í Færeyjum tók Hagtak að sér í alverktöku að byggja 4 deilda leikskóla í Áslandinu í Hafnarfirði. Verkefnið sem hófst um haustið 2003 var lokið í samræmi við tímaáætlun í ársbyrjun 2005 og kostaði um 320 milljónir króna.
Í árslok 1999 og fram til ársbyrjunar 2002 lagði Hagtak til ýmsa stjórnendur við byggingu Vatnsfellsvirkjunar fyrir Íslenska Aðalverktaka, en allir höfðu þeir reynslu af byggingu fjölda virkjana.
Á árinu 2005 urði þáttaskil að því leytinu til að einn eigendanna óskaði eftir því að kannað yrði með sölu á eignarhlut sínum og að hann síðan drægi sig út úr rekstri fyrirtækjanna. Eftir nokkra umþóttun varð sú niðurstaða, að sá yngsti, Gísli J. Friðjónsson, eignaðist aksturshluta rekstrarins, þ.e. Hagvagna og Hópbíla, en Jóhann G. Bergþórsson og Verkfræðiþjónusta Jóhanns G. Bergþórssonar ehf. eignaðist verktakaþáttinn, þ.e. Hagtak og Bensa. Jafnframt tók Jóhann við framkvæmdastjórn fyrirtækisins. Í árslok 2005 var Bensi sameinaður Hagtaki.
Í ársbyrjun 2007 tóku Hagtak og VJGB að sér að leggja til stjórnendur við byggingu stíflumannvirkja við Hraunaveitur í Kárahnjúkavirkjun. Verkefninu lauk í lok október 2007 en þá voru stíflurnar komnar í nauðsynlegt horf vegna vatnsþarfar og vetrarkomu.
Í nóvember 2007 tók síðan Bergþór Jóhannsson tæknifræðingur og MBA við rekstri fyrirtækisins sem forstjóri þess.
Stjórn Hagtaks skipa Jóhann G. Bergþórsson, stjórnarformaður og meðstjórnendur Arnbjörg G. Björgvinsdóttir og Björg Ýr Jóhannsdóttir.